Austfjarðaprestakall – prestur 2


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Austfjarðaprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi. 
Skipað er í embættið frá 1. október 2019 til fimm ára. 

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.  

Í Austfjarðaprestakalli eru 11 sóknir með um 5.500 íbúa. 
Gert er ráð  fyrir að megin embættisskyldur þessa prestsembættis felist í þjónustu við Norðfjarðar-, Brekku-, Reyðarfjarðar-, Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðarsóknir, með sérstökum hæfniskröfum í barna-og æskulýðsstarfi og öðrum skyldum skv. samstarfssamningi presta og erindisbréfi. Áskilinn er réttur til að skilgreina skyldur sem embættinu tilheyri við prófastsdæmið og biskupsstofu eða önnur kirkjuleg stjórnvöld. Undir forystu sóknarprests munu prestarnir skipta með sér verkum og gera með sér skriflegan samstarfssamning, sem kveður frekar á um þær skyldur sem fylgja embættunum og miðar að því að jafna þjónustubyrði. 

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni.
Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. 

Kjörnefnd prestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. Báðum þessum nefndum er veittur tímabundinn rafrænn aðgangur að umsóknum og fylgigögnum með þeim.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum. 
Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið. 

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.  

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar. 

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta. 
Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.  
Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar  hjá sr. Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur sóknarpresti Austfjarðaprestakalls, s. 897 1170  og á Biskupsstofu, s. 528 4000. 

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis fimmtudaginn 4. júlí 2019.
Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram. 
Embætti þetta er eitt fjögurra prestsembætta sem auglýst eru samtímis í Austfjarðaprestakalli. Vegna þessa fjölda auglýsinga og þar sem sumarleyfatími stendur yfir við lok umsóknarfrests má reikna með að málsmeðferð geti tekið nokkurn tíma. 
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. 
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.  

Þarfagreining vegna embættis prests í sameinuðu Austfjarðaprestakalli
Gert er ráð  fyrir að megin embættisskyldur þessa prestsembættis felist í þjónustu við Norðfjarðar-, Brekku-, Reyðarfjarðar-, Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðarsóknir, með sérstökum hæfniskröfum í barna-og æskulýðsstarfi og öðrum skyldum skv. samstarfssamningi presta og erindisbréfi. Auk gagnkvæmra afleysinga- og stoðþjónustu við aðrar sóknir hins sameinaða prestakalls. Sóknarprestur og prestar prestakallsins gera með sér skriflegan samstarfssamning, til að tryggja alls staðar góða þjónustu og jafna þjónustubyrði.  

LÝSING  Á PRESTAKALLINU: 
Austfjarðaprestakall nær frá Brekkusókn í Mjóafirði í austri til Hofssóknar í Álftafirði í suðri. Vegna bættra samgangna og sameiningu sveitafélaga er þetta að stórum hluta eitt atvinnusvæði. 
Í Austfjarðaprestakalli eru 11 sóknir, allar með sóknarkirkju; 
Norðfjarðarsókn, Brekkusókn, Eskifjarðarsókn, Reyðarfjarðarsókn, Fáskrúðsfjarðarsókn, Stöðvarfjarðarsókn, Heydalasókn, Djúpavogssókn, Berufjarðarsókn, Berunessókn og Hofssókn. Að auki eru Kolfreyjustaðarkirkja og Papeyjarkirkja í Papey. 

Í prestakallinu eru margir íbúar af erlendu bergi brotnu, flestir kaþólskir. 
Gott samstarf er við kaþólsku kirkjuna á Austurlandi sem hefur aðsetur við Kollaleiru á Reyðarfirði.   
Á svæðinu er öflugt íþróttastarf og mikið í boði fyrir alla aldurshóp. Stór íþróttahöll er á Reyðarfirði. Góð íþróttahús í öllum þéttbýliskjörnum og sundlaugar eru í Neskaupstað, á Fáskrúðsfirði og Eskifirði.
Tækifæri til útivistar eru mörg. Náttúruperlur víða og stutt í skíðasvæði. 

Norðfjarðarsókn   
Í sókninni búa 1500 manns og þar af eru um1200 innan þjóðkirkju. Aldursdreifing: 0-19 ára: 331. 20 til 64 ára: 570. Á eftirlaunaaldri: 261
 
Aðal atvinnuvegur er mikil útgerð og fiskvinnsla. En einnig fjölbreytt verslun, þjónusta og ört vaxandi ferðaþjónusta. 
Umdæmissjúkrahús Austurlands er á Norðfirði. Við sjúkrahúsið eru íbúðir aldraðra Breiðablik. 

Í Neskaupstað er leikskóli með 120 nemendum, grunnskóli með 215 nemendum og tónlistarskólinn er með aðsetur í grunnskólanum. Verkmenntaskóli Austurlands er í Neskaupsstað, með um 100 nemendur. 
Norðfjarðarkirkja var vígð 1897. Aðbúnaður kirkjunnar til helgihalds er góður. 
Starfsaðstaða er fyrir prest í safnaðarheimilinu og skrifstofa vel tækjum búin.  

Safnaðarheimili er byggt við kirkjuna og nýtist vel fyrir allt safnaðarstarf. Þar er góð aðstaða fyrir fundi og veislur og það. Aðgengi fyrir fatlaða er gott. Hljóðkerfi er samtengt kirkju.
Líkhús er við sjúkrahúsið með kapellu.
Guðsþjónustur eru að jafnaði annan hvern sunnudag. 
Reglulegar helgistundir og vitjanir á hjúkrunar- og sjúkradeild og í Breiðabliki.
Barna – og fjölskylduguðsþjónustur eru 5 yfir árið og flesta sunnudaga er sunnudagaskóli yfir vetrartímann. 

Nokkrir minningardagar eru haldnir í söfnuðinum. 
Kirkjukór er starfandi við kirkjuna. En organisti hefur ekki verið í föstu starfi s.l. tvö ár og starfið tekið mið af því.
Foreldramorgnar hafa verið nokkuð reglulega.
AA- fundir í safnaðarheimili hvert föstudagskvöld.
Æskilegt væri að leita leiða til að auka barnastarfið.
Við söfnuðinn starfa meðhjálpari og ræstir. Að auki er gert ráð fyrir hlutastarfi organista. Annað starf er sjálfboðið. 

Brekkusókn
Í Mjóafirði búa nú um 14 einstaklingar og flestir teljast til þjóðkirkju. 
Aldursdreifing: 0-19 ára: 1, 20 til 64 ára: 4. Á eftirlaunaaldri: 7
Mjófjarðarkirkja er timburkirkja frá 1892, hún stendur í Brekkuþorpi. Messað er á stórhátíðum og eftir atvikum aðrar athafnir. 
Grunnskólabörn þurfa að sækja skóla á Norðfjörð. Sjávarútgerð í smáum stíl ásamt sauðfjárbúskap.

Eskifjarðarsókn
Rúmlega þúsund íbúar í sókninni, þar af eru  750 í Þjóðkirkjunni. Aldursdreifing:
0-19 ára: 210. 20 til 64 ára: 391. Á eftirlaunaaldri: 151
Aðalatvinnuvegur er öflugur sjávarútvegur og fiskvinnsla, en verslun og þjónusta eru líka mikilvægar atvinnugreinar. 

Nýja kirkjan var vígð 2000. Sú kirkja er sérstaklega hönnuð með tónleikaflutning í huga. Hún þjónar líka sem tónlistarmiðstöð Austurlands og því mikið samstarf við menningarfulltrúa Fjarðabyggðar. Kirkjuskipið/tónlistarsalurinn tekur rúmlega 300 manns í sæti.  Opna má fram í anddyri, sem tekur 100 manns í sæti.

Starfsaðstaðan er eins og best verður á kosið. Skrifsstofur eru fyrir presta og starfsfólk. Salir, rúmar geymslur og tækni sem til þarf. Ástand kirkju og safnaðarheimilis er með ágætum og til fyrirmyndar.
Miklir möguleikar í safnaðarstarfi og samstarfi við aðrar stofnanir, t.d. í tengslum við tónlistarmiðstöðina. 

Safnaðarstarf hefur verið mikið og gott á Eskifirði. 
Messað er annan hvern sunnudag. Barnaguðsþjónustur og sunnudagaskóli eru reglulega. Forsendur eru fyrir því að sunnudagaskólinn sé hvern sunnudag yfir vetrartímann. 
Foreldramorgnar hafa verið annað veifið. 
12 spora fundir eru í kirkjunni.
Mikil áhersla hefur verið á barna- og æskulýðsstarf í Eskifjarðarsókn og verður það áfram. Barnakór hefur verið starfandi á Eskifirði sl. 30 ár.
TTT – starf og æskulýðsstarf er vikulegt yfir vetrartímann.
Á Eskifirði er sérstakur karlakór, sem syngur jafnan við útfarir og einstaka kirkjulega viðburði. 

Starfandi er kirkjuvörður, organisti og ræstir. 
Dvalar- og hjúkrunarheimilið Hulduhlíð er á Eskifirði og sinnir prestur því, með heimsóknum og helgihaldi. 
Á Eskifirði er líkhús með kapellu sem þjónar einnig Reyðarfjarðarsókn
Í grunnskólanum eru um 160 nemendur, í leikskólanum eru 80 börn. Tónlistarskóli er staðsettur í skólanum. 
Heilsugæsla er á Eskifirði og þar er aðsetur lögreglustjórans á Austurlandi. 

Reyðarfjarðarsókn 
Íbúafjöldi í sókninni 1302, þar af eru 860 í Þjóðkirkjunni. Aldursdreifing:
0-19 ára: 269. 20 til 64 ára: 469. Á eftirlaunaaldri: 123
Helstu atvinnuvegir eru þjónusta og verslun en stærsti vinnustaðurinn er álver Alcoa við Hraun. Bæjarskrifstofur Fjarðabyggðar eru á Reyðarfirði og höfuðstöðvar Vegagerðar ríkisins á Austurlandi.  

Reyðarfjarðarkirkja var byggð 1910 og var endurnýjuð á 8. áratugnum. Safnaðarheimili er sambyggt og er innangengt.
Starfsaðstaðan er eins og best verður á kosið fyrir safnaðarstarf. Tvær skrifstofur eru fyrir presta, salir, góðar geymslur og tækni sem til þarf. Safnaðarsalur hefur  verið leigður út fyrir veislur.
Safnaðarstarf er öflugt. 

Messað er annan hvern sunnudag, barnaguðsþjónustur og sunnudagaskóli eru reglulega. Forsendur eru fyrir því að sunnudagaskólinn sé hvern sunnudag yfir vetrartímann. 
Mikil áhersla hefur verið á barna- og æskulýðsstarf í Reyðarfjarðarsókn, TTT – starf og æskulýðsfélag starfa þar vikulega yfir veturinn.
Organisti er starfandi við kirkjuna og kórastarf líflegt. Annað starf er sjálfboðið. 

Nemendur grunnskólans eru 220, á leikskólanum eru um 110 börn. Tónlistarskólinn er staðsettur í grunnskólanum.  
Það er fjölgun íbúa á Reyðarfirði, hlutfall barnafjölskyldna er hátt og þar eru miklir möguleikar í safnaðarstarfi og sóknarfærin mörg.    

Fáskrúðsfjarðarsókn 
Alls eru íbúar um 750, þar af um 580 skráðir í söfnuðinn. Aldursdreifing: 0-19 ára: 149. 20 til 64 ára: 281. Á eftirlaunaaldri: 111
Höfnin er lífæðin, sjávarútvegur aðalatvinna, þar sem rekin er togara- og bátaútgerð, fiskvinnsla og loðnuvinnsla. Nokkur smábátaútgerð, fiskeldi og sauðfjárrækt til sveita. Þjónusta við ferðamenn vaxandi.   

Á staðnum er skólamiðstöð, þar sem er leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, skólasel og bókasafn undir sama þaki. Leikskólabörn eru um 50 og grunnskólabörn eru 90-100. Á dvalarheimili aldraðra, Uppsölum eru þjónustuíbúðir og hjúkrunardeild.    
Heilsugæsla er á Fáskrúðsfirði og lögreglustöð. 

Í sókninni eru tvær kirkjur, Kolfreyjustaðarkirkja og Fáskrúðsfjarðarkirkja.
Kolfreyjustaðarkirkja vígð 1878 og endurvígð 1992. Hinu gamla kirkjuhúsi og garðinum er vel við haldið og aðstaða góð. Þar innan kirkjugarðs stendur þjónustuhús, Pálshús sem rúmar um 30 manns í sæti. 

Fáskrúðsfjarðarkirkja stendur í miðju Búðakauptúni. Hún var vígð 1915.  Lítið safnaðarheimili er við austurenda hennar. Þar er skrifstofa sóknarprests, safnaðarrými til fundahalda auk geymslulofts. Kirkjan hefur til leigu gamla verkalýðshúsið, sem nýtist vel fyrir safnaðarstarf.
Kirkjugarðar eru vel hirtir. 
Meðaltal almennra guðsþjónusta er ein í mánuði, fleiri á stórhátíðum. Fjölskylduguðsþjónustur nokkrar yfir vetrartímann.
Sunnudagskólinn hefur gengið vel á undanförnum árum og er alla sunnudaga yfir vetrartímann.  

Kirkjukór er starfandi og organisti í hlutastarfi.
Annað starf er sjálfboðið, sóknarnefndin sér um þrif á kirkjum og sjálfboðliðar sjá um barnastarfið ásamt sóknarpresti. 

Greining á helstu veikleikum og styrkleikum í starfi: 
Styrkleikar: Starfsaðstaða er mjög góð, kirkjum er vel viðhaldið, sem og öll umhirða kirkjugarða. Safnaðarheimili með skrifstofu og safnaðarsölum eru í þéttbýliskjörnunum og kórastarf víða öflugt. Ráðdeild er alls staðar í rekstri. Einnig njóta kirkjurnar velvildar fyrirtækja og einstaklinga sem leggja kirkjunum lið ef eftir því er leitað. 

Sóknarnefndir eru virkar og jákvæðar fyrir fjölbreyttu safnaðarstarfi. Almennt eru góð tengsl kirkjunnar við söfnuði sína. 
Veikleikar Þrátt fyrir stórbættar samgöngur undanfarin ár eru vegalengdir miklar. Í sumum sóknum hefur gengið erfiðlega að fá organista til starfa og að viðhalda góðu og öflugu æskulýðsstarfi. Erfiðari rekstragrundvöllur vegna minni sóknargjalda. Áskoranir eru miklar að efla messusókn.

Áherslur í starfi: 
Æskilegt er að prestur hafi reynslu af barna-og æskulýðsstarfi. Markmiðið er að viðhalda öllu því góða starfi sem þegar er unnið. Allar sóknanefndir eru einhuga um að leggja áherslu á uppbyggingu í barna- og æskulýðsstarfi og efla það enn frekar.

Einnig starf með eldri borgurum, svo og að auðga almennt safnaðarstarf. Vilji er til að standa áfram fyrir hefðbundnu helgihaldi með nýbreytni og að prestar séu í góðu sambandi við sóknarbörn sín. Starfið í kirkjunni á að endurspegla tengingu kirkjunnar við samfélagið. Viðvera prests á hverri starfsstöð er mikilvæg, fastir viðtalstímar og að prestar séu sýnilegir og virkir í samfélaginu. 

Umsóknarfrestur til og með 4. júlí 2019