Austfjarðaprestakall – prestur 3


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Austfjarðaprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi, með aðsetur í Heydölum í Breiðdal. 
Skipað er í embættið frá 1. nóvember 2019 til fimm ára.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.  

Í Austfjarðaprestakalli eru 11 sóknir með um 5.500 íbúa. 
Áskilinn er réttur til að skilgreina skyldur sem embættinu tilheyri við prófastsdæmið og biskupsstofu eða önnur kirkjuleg stjórnvöld. Undir forystu sóknarprests munu prestarnir skipta með sér verkum og gera með sér skriflegan samstarfssamning, sem kveður frekar á um þær skyldur sem fylgja embættunum og miðar að því að jafna þjónustubyrði. 

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni.
Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. 

Kjörnefnd prestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. Báðum þessum nefndum er veittur tímabundinn rafrænn aðgangur að umsóknum og fylgigögnum með þeim.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum. 
Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið. 

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.  
Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar. 

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta. 
Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.  

Prestsembættinu fylgir prestssetursjörðin Heydalir í Breiðdal, 761 Breiðdalsvík. Presti er skylt að hafa þar aðsetur og lögheimili. Vísað er til starfsreglna um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr. 950/2009. Drög að haldsbréfi eru aðgengileg hér,https://kirkjan.is/geymt-efni/haldsbref/

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar  hjá sr. Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur sóknarpresti Austfjarðaprestakalls, s. 897 1170  og á Biskupsstofu, s. 528 4000. 

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis fimmtudaginn 4. júlí 2019.
Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram. 
Embætti þetta er eitt fjögurra prestsembætta sem auglýst eru samtímis í Austfjarðaprestakalli. Vegna þessa fjölda auglýsinga og þar sem sumarleyfatími stendur yfir við lok umsóknarfrests má reikna með að málsmeðferð geti tekið nokkurn tíma. 
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. 
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.  

Þarfagreining vegna embættis prests í sameinuðu Austfjarðaprestakalli
Gert er ráð  fyrir að megin embættisskyldur þessa prestsembættis felist í þjónustu við Heydala- og Stöðvarfjarðarsóknir sem og við Fáskrúðsfjarðarsókn og Reyðarfjarðarsókn ásamt öðrum skyldum skv. samstarfssamningi presta og erindisbréfi. Auk gagnkvæmra afleysinga og stoðþjónustu við aðrar sóknir hins sameinaða prestakalls. Sóknarprestur og prestar prestakallsins gera með sér skriflegan samstarfssamning, til að tryggja alls staðar góða þjónustu og jafna þjónustubyrði.  

LÝSING Á PRESTAKALLINU: 
Austfjarðaprestakall nær frá Brekkusókn í Mjóafirði í austri til Hofssóknar í Álftafirði í suðri. Vegna bættra samgangna og sameiningu sveitafélaga er þetta að stórum hluta eitt atvinnusvæði. 
Í Austfjarðaprestakalli eru 11 sóknir, allar með sóknarkirkju; 
Norðfjarðarsókn, Brekkusókn, Eskifjarðarsókn, Reyðarfjarðarsókn, Fáskrúðsfjarðarsókn, Stöðvarfjarðarsókn, Heydalasókn, Djúpavogssókn, Berufjarðarsókn, Berunessókn og Hofssókn. Að auki eru Kolfreyjustaðarkirkja og Papeyjarkirkja í Papey. 

Í prestakallinu eru margir íbúar af erlendu bergi brotnu, flestir kaþólskir. 
Gott samstarf er við kaþólsku kirkjuna á Austurlandi sem hefur aðsetur við Kollaleiru á Reyðarfirði.  
Aðstaða til íþróttaiðkunar er góð, íþróttahús og sundlaugar. Tækifæri til útivistar eru mörg. Náttúruperlur víða og stutt í skíðasvæði. 

Stöðvarfjarðarsókn                                                 
Íbúafjöldi í sókninni er 184 og þar af eru 138 í þjóðkirkjunni. Aldursdreifing:
0-19 ára: 20. 20 til 64 ára: 73. Á eftirlaunaaldri: 45
Stöðvarfjarðarkirkja var vígð árið 1991. Hún rúmar 150 manns í sæti og til viðbótar 50 manns í samtengdu safnaðarheimili. Öll aðstaða er eins góð og á verður kosið. Þar er skrifstofa og skrúðhús fyrir prestinn. Húsið nýtist mjög vel í safnaðarstarfi og þar fara erfidrykkjur fram, skírnar-og fermingarveislur. 

Í Stöðvarfjarðarkirkju er messað reglulega u.þ.b. 14 sinnum á ári og kirkjuskóli barnanna á veturna flesta sunnudaga þegar ekki er messað. Þá fer fram TTT starf og starf með unglingum. Kirkjukórinn er sameiginlegur með Heydalasókn og er eitt virkasta félagið í byggðarlaginu. Organisti er  í 50% starfi sem skiptist jafnt á milli Heydala- og Stöðvarfjarðarsókna. Þetta samstarf hefur reynst afar farsælt.  
Tveir kirkjugarðar eru í sókninni í Stöð og í þorpinu.

Stöðvarfjörður var fyrrum mikill sjávarútvegsbær, en hefur nú breyst. Höfnin er enn mikilvæg lífæð þó að landaður afli sé að mestu fluttur í burtu. Ferðaþjónusta er talsverð. Þá hefur nýsköpunarmiðstöð lista og handverka verið í öflugri uppbyggingu síðustu ár.
Dagvist aldraðra er opin tvisvar í viku og þangað sækja margir. Presturinn er þar aufúsugestur. 

Með sameiningu Breiðdals við Fjarðabyggð 2018 voru skólarnir sameinaðir. 10 börn eru í leikskólanum á Stöðvarfirði og 11 börn í grunnskólanum.
Presturinn hefur haft náið og traust samstarf við skólafólkið. 
Stöðvarfjarðarsókn hefur verið í samstarfi við Heydala-og Fáskrúðsfjarðarsóknir um Dag eldri borgara á uppstigningardegi.

Á föstudaginn langa er Æðruleysismessa í Stöðvarfjarðarkirkju með kirkjukaffi á eftir í samstarfi við AA fólk á Austurlandi. 
Á Stöðvarfirði er heilsugæsla, félagsþjónustan þjónar frá Reyðarfirði og lögreglan frá Fáskrúðsfirði. 

Heydalasókn 
Íbúar eru um 188 og þar af eru 141 í Þjóðkirkjunni. Aldursdreifing:
Börn og yngri en 20 ára; 19. 20 til 64 ára: 90. Á eftirlaunaaldri: 34
Heydalir eru sögustaður og núna eina prestsetrið í sveit á Austurlandi. Hæst ber í sögu staðarins minningin um sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1590-1627 í Heydölum). Í minningu hans er árleg menningarhátíð, Einarsvaka á sumardaginn fyrsta, auk þess er fallegur minnisvarði um hann við hlið kirkjunnar. 

Í Heydölum er sóknarkirkja, sem var vígð árið 1975 og rúmar 120-150 manns í sæti. Þar er líka kirkjugarður sóknarinnar og vel að öllu búið. 
Heydalir eru landbúnaðarjörð og ein sú stærsta í sveitinni. Henni tilheyra Breiðdalseyjar þar sem er m.a. æðarvarp, lundi og selur, sem presturinn hefur nytjað um aldir. Þá eiga Heydalir 29% í Breiðdalsá með veiðihlunnindum og er verkefni prestsins að gæta þeirra gegn greiðslu samkvæmt 23. gr. starfsreglna um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr. 950/2009. Einnig tún, girðingar og skógrækt sem presturinn ber ábyrgð á f.h. Þjóðkirkjunnar. 

Breiðdalur er landbúnaðarhérað. Þar er stundaður hefðbundinn búskapur auk vaxandi ferðaþjónustu. Talsverð nýliðun hefur átt sér stað í sveitinni og ungt fjölskyldufólk tekið við búskapnum.
Hin síðari ár hefur ungu fjölskyldufólki fjölgað á Breiðdalsvík og það látið til sín taka með margs konar nýsköpun í atvinnulífinu, t.d. í ferða-og veitingarekstri, fullvinnslu landbúnaðarafurða, þvottahúsi, brugghúsi og uppbyggingu í sjávarútvegi, bæði í veiðum og vinnslu sjávarafurða. 

Í leikskólanum eru 10 börn og 13 börn í grunnskóla sem er sameiginlegur með Stöðvarfirði. Presturinn hefur átt náið samstarf með skólafólkinu. 
Á Breiðdalsvík er dagvist eldri borgara, þangað kemur presturinn reglulega.  
Heilsugæsla er á Breiðdalsvík. 
Samstarf á milli Stöðvarfjarðar- og Heydalasókna er mikið, sbr kirkjukór og organista. 
Messað hefur verið u.þ.b. 14 sinnum i hvorri kirkju á ári,- og oftast í báðum kirkjum sama dag. Yfir veturinn er oftast kirkjuskóli barnanna á hvorum stað þá sunnudaga sem ekki er messað. Þá er TTT starf og einnig starf með unglingum. 
Starfsaðstaða prestsins er á prestsetrinu, en hann nýtur samstarfs við grunnskólann um ýmsa þjónustu.

Í Heydalakirkju er vel búið að öllu og aðstaða til helgihalds er góð. Safnaðarstarfið utan kirkjunnar hefur farið fram í grunnskólanum og félagshúsnæði Björgunarsveitarinnar á Breiðdalsvík.
Félagsþjónustan í Fjarðabyggð þjónar Breiðdal. 

Fáskrúðsfjarðarsókn 
Alls eru íbúar um 750, þar af um 580 skráðir í söfnuðinn. Aldursdreifing: 0-19 ára: 149. 20 til 64 ára: 281. Á eftirlaunaaldri: 111
Höfnin er lífæðin, sjávarútvegur aðalatvinna, þar sem rekin er togara- og bátaútgerð, fiskvinnsla og loðnuvinnsla. Nokkur smábátaútgerð, fiskeldi og sauðfjárrækt til sveita. Þjónusta við ferðamenn vaxandi.   

Á staðnum er skólamiðstöð, þar sem er leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, skólasel og bókasafn undir sama þaki. Leikskólabörn eru um 50 og grunnskólabörn eru 90-100. Á dvalarheimili aldraðra, Uppsölum eru þjónustuíbúðir og hjúkrunardeild.    
Heilsugæsla er á Fáskrúðsfirði og lögreglustöð. 
Í sókninni eru tvær kirkjur, Kolfreyjustaðarkirkja og Fáskrúðsfjarðarkirkja.
Kolfreyjustaðarkirkja vígð 1878 og endurvígð 1992. Hinu gamla kirkjuhúsi og garðinum er vel við haldið og aðstaða góð. Þar innan kirkjugarðs stendur þjónustuhús, Pálshús sem rúmar um 30 manns í sæti. 

Fáskrúðsfjarðarkirkja stendur í miðju Búðakauptúni. Hún var vígð 1915.  Lítið safnaðarheimili er við austurenda hennar. Þar er skrifstofa sóknarprests, safnaðarrými til fundahalda auk geymslulofts. Kirkjan hefur til leigu gamla verkalýðshúsið, sem nýtist vel fyrir safnaðarstarf.
Kirkjugarðar eru vel hirtir. 
Meðaltal almennra guðsþjónusta er ein í mánuði, fleiri íá stórhátíðum. Fjölskylduguðsþjónustur nokkrar yfir vetrartímann.

Sunnudagskólinn hefur gengið vel á undanförnum árum og er alla sunnudaga yfir vetrartímann.  
Kirkjukór er starfandi og organisti í hlutastarfi.
Annað starf er sjálfboðið, sóknarnefndin sér um þrif á kirkjum og sjálfboðliðar sjá um barnastarfið ásamt sóknarpresti. 

Reyðarfjarðarsókn 
Íbúafjöldi í sókninni 1302, þar af eru 860 í Þjóðkirkjunni. Aldursdreifing:
0-19 ára: 269. 20 til 64 ára: 469. Á eftirlaunaaldri: 123
Helstu atvinnuvegir eru þjónusta og verslun en stærsti vinnustaðurinn er álver Alcoa við Hraun. Bæjarskrifstofur Fjarðabyggðar eru á Reyðarfirði og höfuðstöðvar Vegagerðar ríkisins á Austurlandi.  

Reyðarfjarðarkirkja var byggð 1910 og var endurnýjuð á 8. áratugnum. Safnaðarheimili er sambyggt og er innangengt.
Starfsaðstaðan er eins og best verður á kosið fyrir safnaðarstarf. Tvær skrifstofur eru fyrir presta, salir, góðar geymslur og tækni sem til þarf. Safnaðarsalur hefur  verið leigður út fyrir veislur.
Safnaðarstarf er öflugt. 

Messað er annan hvern sunnudag, barnaguðsþjónustur og sunnudagaskóli eru reglulega. Forsendur eru fyrir því að sunnudagaskólinn sé hvern sunnudag yfir vetrartímann. 
Mikil áhersla hefur verið á barna- og æskulýðsstarf í Reyðarfjarðarsókn, TTT – starf og æskulýðsfélag starfa þar vikulega yfir veturinn.
Organisti er starfandi við kirkjuna og kórastarf líflegt. Annað starf er sjálfboðið. 

Nemendur grunnskólans eru 220, á leikskólanum eru um 110 börn. Tónlistarskólinn er staðsettur í grunnskólanum.  
Það er fjölgun íbúa á Reyðarfirði, hlutfall barnafjölskyldna er hátt og þar eru miklir möguleikar í safnaðarstarfi og sóknarfærin mörg.    

Greining á helstu veikleikum og styrkleikum í starfi: 
Styrkleikar: Starfsaðstaða er víðast eins og best verður á kosið, kirkjum er vel viðhaldið, sem og öll umhirða kirkjugarða. Ráðdeild í rekstri. En kirkjurnar njóta velvildar einstaklinga og fyrirtækja sem leggja gjarnan lið ef eftir því er leitað. 
Sóknarnefndir eru virkar og jákvæðar fyrir fjölbreyttu safnaðarstarfi. Góð tengsl kirkjunnar við söfnuði sína. Öflugt kórastarf. 

Veikleikar Fjarlægðir í prestakallinu, þrátt fyrir stórbættar samgöngur undanfarin ár eru vegalengdir miklar. Erfiðari rekstragrundvöllur vegna minni sóknargjalda. Áskoranir eru miklar að efla messusókn.

Áherslur í starfi: 
Markmiðið er að viðhalda öllu því góða starfi sem þegar er unnið. Allar sóknanefndir eru einhuga um að leggja áherslu á uppbyggingu í barna- og æskulýðsstarfi og efla það enn frekar. Einnig starf með eldri borgurum, svo og að auðga almennt

safnaðarstarf. Vilji er til að standa áfram fyrir hefðbundnu helgihaldi með nýbreytni og að prestar séu í góðu sambandi við sóknarbörn sín. Starfið í kirkjunni á að endurspegla tengingu kirkjunnar við samfélagið. Viðvera prests á hverri starfsstöð er mikilvæg, fastir viðtalstímar og að prestar séu sýnilegir og virkir í samfélaginu.  

Umsóknarfrestur til og með 4. júlí 2019