Austfjarðaprestakall – prestur 4


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Austfjarðaprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi, með aðsetur á Djúpavogi.

Skipað er í embættið frá 1. nóvember 2019 til fimm ára.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Í Austfjarðaprestakalli eru 11 sóknir með um 5.500 íbúa.
Áskilinn er réttur til að skilgreina skyldur sem embættinu tilheyri við prófastsdæmið og biskupsstofu eða önnur kirkjuleg stjórnvöld. Undir forystu sóknarprests munu prestarnir skipta með sér verkum og gera með sér skriflegan samstarfssamning, sem kveður frekar á um þær skyldur sem fylgja embættunum og miðar að því að jafna þjónustubyrði. 

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni.
Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.

Kjörnefnd prestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. Báðum þessum nefndum er veittur tímabundinn rafrænn aðgangur að umsóknum og fylgigögnum með þeim.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.
Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.  

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar. 

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta. 
Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.  

Prestsembættinu fylgir prestsbústaðurinn Steinar 1, Djúpavogi, Djúpavogshreppi. Presti er skylt að hafa þar aðsetur og lögheimili. Vísað er til starfsreglna um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr. 950/2009. Drög að haldsbréfi eru aðgengileg hér,https://kirkjan.is/geymt-efni/haldsbref/

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar  hjá sr. Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur sóknarpresti Austfjarðaprestakalls, s. 897 1170  og á Biskupsstofu, s. 528 4000. 

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis fimmtudaginn 4. júlí 2019. Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram. 
Embætti þetta er eitt fjögurra prestsembætta sem auglýst eru samtímis í Austfjarðaprestakalli. Vegna þessa fjölda auglýsinga og þar sem sumarleyfatími stendur yfir við lok umsóknarfrests má reikna með að málsmeðferð geti tekið nokkurn tíma. 

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. 
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.  

Þarfagreining vegna embættis prests í sameinuðu Austfjarðaprestakalli
Gert er ráð  fyrir að megin embættisskyldur þessa prestsembættis felist í þjónustu við Djúpavogssókn, Berufjarðarsókn, Berunessókn og Hofssókn. Mikilvægar eru einnig skyldur við pestakallið allt skv. samstarfssamningi presta og erindisbréfi. Auk gagnkvæmra afleysinga og stoðþjónustu við aðrar sóknir hins sameinaða prestakalls.

Sóknarprestur og prestar prestakallsins gera með sér skriflegan samstarfssamning, til að tryggja alls staðar góða þjónustu og jafna þjónustubyrði.  

LÝSING Á PRESTAKALLINU: 
Austfjarðaprestakall nær frá Brekkusókn í Mjóafirði í austri til Hofssóknar í Álftafirði í suðri. Töluverð fjarlægð er frá Djúpavogi til annarra byggðakjarna. 
Í Austfjarðaprestakalli eru 11 sóknir, allar með sóknarkirkju; 
Norðfjarðarsókn, Brekkusókn, Eskifjarðarsókn, Reyðarfjarðarsókn, Fáskrúðsfjarðarsókn, Stöðvarfjarðarsókn, Heydalasókn, Djúpavogssókn, Berufjarðarsókn, Berunessókn og Hofssókn. Að auki eru Kolfreyjustaðarkirkja og Papeyjarkirkja í Papey. 

Í prestakallinu eru margir íbúar af erlendu bergi brotnu, flestir kaþólskir. 
Gott samstarf er við kaþólsku kirkjuna á Austurlandi sem hefur aðsetur við Kollaleiru á Reyðarfirði.  
Tækifæri til útivistar eru mörg. Þar eru sérstakar náttúruperlur, eins og Blábjörg og Papey og fuglalífið á Búlandsnesinu, í Hamarsfirði og í Álftafirði.  

Í Djúpavogssókn eru íbúar um 400, þar af eru tæplega 300 í þjóðkirkjunni. 
Aldursdreifing: 0-19 ára: 81. 20 til 64 ára: 138. Á eftirlaunaaldri: 57.
Reisuleg kirkja er á Djúpavogi sem var vígð árið 1996. Þetta er nokkuð stór kirkjubygging, enda hefur hún nýst mjög vel til ýmissa menningarviðburða, ekki síst tónleikahalds.  Afbragðs starfsaðstaða er þar fyrir prest, kór og organista. 
Flestar útfarir fara fram frá Djúpavogskirkju þó jarðsett sé í kirkjugörðum annars staðar í prestakallinu og fólk sem býr í sveitunum kemur til guðsþjónustu í Djúpavogskirkju.    

Í Berunessókn eru sóknarbörnin 21. Aldursdreifing: 0-19 ára: 5, 20 til 64 ára: 8. Á eftirlaunaaldri: 8
Núverandi kirkja er lítil timburkirkja sem var reist 1874.     

Í Berufjarðarsókn eru sóknarbörn 25. Aldursdreifing:
0-19 ára: 9. 20 til 64 ára: 10. Á eftirlaunaaldri: 6
Núverandi kirkja í Berufirði var vígð árið 1940 og tekur 40-50 manns í sæti.   

 Í Hofssókn í Álftafirði eru sóknarbörn 21. Aldursdreifing:
0- 19 ára: 4. 20 til 64 ára: 10. Á eftirlaunaaldri: 7
Núverandi kirkja var byggð 1896. Kirkja var endurbyggð 1969. Endurbætur á kirkjunni standa nú yfir í samstarfi við Minjavernd ríkisins.

Atvinnuvegir eru sjávarútvegur, vaxandi ferðaþjónusta og landbúnaður.

Í Djúpavogssókn eru margar barnafjölskyldur og fjöldi barna og unglinga mikill miðað við fólksfjölda.  Þó nokkur endurnýjun hefur verið í dreifbýlinu og þar er frekar að fjölga. 
Grunnskólinn á Djúpavogi telur 75 nemendur, leikskólinn 37 . Þar er ágætis íþróttahús og sundlaug. Ungmennafélagið Neisti er öflugt. Félagsstarf er mikið á Djúpavogi. 

Í Djúpavogskirkju voru 14 messur/guðsþjónustur árið 2018, ein aðventuhátíð auk bænastunda. Í Hofskirkju voru 2 guðsþjónustur, í Berufirði voru lesnir Passíusálmar og í Berunesi var 1 guðsþjónusta.  
Sunnudagsskóli var í Djúpavogskirkju og TTT starf.

Á Djúpavogi er dagvist aldraðra og þangað fer prestur reglulega. Messur/guðsþjónustur eru ágætlega sóttar eins og annað kirkjustarf.
Mjög öflugt kórstarf hefur verið í prestakallinu, en sameiginlegur 20 manna kór er fyrir allar sóknirnar og hafa verið starfandi mjög góðir tónlistarmenn við kirkjuna.   
Vel er hugsað um allar kirkjubyggingarnar og kirkjugarðana. Fólkið í söfnuðum er mjög duglegt að halda öllu við.     

Umdæmissjúkrahús Austurlands er á Norðfirði.  
Verkmenntaskóli Austurlands er á Norðfirði og þjónar öllu svæðinu.  

Dvalar- og hjúkrunarheimili eru Uppsalir á Fáskrúðsfirði, Hulduhlíð á Eskifirði og Breiðablik á Norðfirði. 

Greining á helstu veikleikum og styrkleikum í starfi: 
Styrkleikar: Starfsaðstaða í Djúpavogskirkju er mjög góð. Kirkjum er vel viðhaldið, sem og öll umhirða kirkjugarða. Öflugt kórastarf og gott tónlistarstarf.     
Í kirkjunum er fyrst og fremst sjálfboðið starf, gott fólk sem lætur sér annt um kirkjurnar sínar. Sóknarnefndir eru virkar og eru jákvæðar fyrir nýjungum í safnaðarstarfi. Góð tengsl kirkjunnar við söfnuði sína. 

Veikleikar Fjarlægðir í prestakallinu, þrátt fyrir stórbættar samgöngur undanfarin ár eru vegalengdir miklar, sem ítrekar þörfina fyrir búsetu prests á staðnum. Áskoranir eru miklar að efla messusókn. 
Þröng fjárhagsstaða fámennra safnaða. 

Áherslur í starfi: 
Markmiðið er að viðhalda öllu því góða starfi sem þegar er unnið. Allar sóknarnefndir eru einhuga um að leggja áherslu á uppbyggingu í barna- og æskulýðsstarfi og efla það enn frekar. Einnig starf með eldri borgurum, svo og að auðga almennt safnaðarstarf. Vilji er til að standa áfram fyrir hefðbundnu helgihaldi með nýbreytni og að prestar séu í góðu sambandi við sóknarbörn sín. Starfið í kirkjunni á að endurspegla tengingu kirkjunnar við samfélagið. Viðvera prests á hverri starfsstöð er mikilvæg, fastir viðtalstímar og að prestar séu sýnilegir og virkir í samfélaginu.  

Umsóknarfrestur til og með 4. júlí 2019