Dómkirkjuprestakall - prestur


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Dómkirkjuprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Skipað er í embættið frá 1. október 2017 til fimm ára.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Í Dómkirkjuprestakalli er ein sókn, Dómkirkjusókn, með rúmlega átta þúsund íbúa og eina kirkju, Dómkirkjuna í Reykjavík. Dómkirkjusókn er á samstarfssvæði með Háteigs-, Hallgríms-, Nes- og Seltjarnarnessóknum.  Dómkirkjan er heimakirkja biskups Íslands.

Vísað er til þarfagreiningar sóknar prestakallsins varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni. Þá er bent á vef Dómkirkjuprestakalls: www.domkirkjan.is 

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.
Kjörnefnd Dómkirkjuprestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. 

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar.

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu, s. 5284000, hjá sr. Sveini Valgeirssyni, sóknarpresti Dómkirkjuprestakalls, s. 5209700 og sr. Helgu Soffíu Konráðsdóttur, prófasti Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, s. 5115400.

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis mánudaginn 14. ágúst 2017.

Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti 

DÓMKIRKJAN ÞARFAGREING

Þarfagreining þessi er grundvöllur auglýsingar um starf prests Dómkirkjunnar,

Dómkirkjan:

Dómkirkjan gegnir þýðingarmiklu hlutverki hjá íslensku þjóðinni.

Dómkirkjusókn:

Neðangreindar upplýsingar um fjölda í sókninni miðast við 1. desember 2016.

Fjöldi sóknarmanna er 3.848. Þar af flokkast undir fjölskyldur 2.797. fæddir erlendis 292 og börn á fermingarári 49.

Aldursgreining er þannig: Undir grunnskólaaldri eru 154, á grunnskólaaldri 429, á framhaldsskólaaldri 135, 20 til 34 ára 817, 35 til 64 ára 1.516 og á eftirlaunaaldri 797.

Húsakostur:

Kirkjan er byggð árið 1796. Á lofti kirkjunnar er salur sem nýttur er m.a. fyrir tónlistarstarf, kór, ofl.

Safnaðarheimili er staðsett að Lækjargötu 14 a, en þar eru skrifstofur presta, fundarsalir ofl. sem varðar starfsemi kirkjunnar.

Innra starf Dómkirkjunnar:

Við Dómkirkjuna eru tvö prestsembætti.

Starfandi er organisti í 100% starfi. Hann stjórnar Dómkórnum og tónlistarstarfi. Einnig er starfandi Kammerkór Dómkirkjunnar. Í Dómkórnum eru 50 meðlimir og 20 meðlimir eru í Kammerkór Dómkirkjunnar.

Haldnir eru Tónlistardagar Dómkirkjunnar á haustin, metnaður er lagður í að frumflytja ný tónverk fyrir Dómkórinn. Í  síðustu dymbilviku var flutt Jóhannesarpassían.

Í Dómkirkjunni starfa einnig:

Kirkjuhaldari í 100% starfi

Kirkjuvörður í 91% starfi.

Einnig er húsmóðir í safnaðarheimili í hlutastarfi.

Auk þess starfa sjálfboðaliðar við ýmis störf.

Helgihald í Dómkirkjunni:

Fyrir utan að vera sóknarkirkja Dómkirkjusafnaðarins, þá er Dómkirkjan höfuðkirkja, kirkja biskups Íslands og Alþingis. 

Messað er hvern helgidag í Dómkirkjunni. Þar fara fram æðruleysismessur, kirkjulegar athafnir s.s. útfarir, brúðkaup, skírnir og fermingar. Enn fremur tónleikar og messur á erlendum tungumálum, setning Alþingis, innsetning forseta Íslands, skólasetning Menntaskólans í Reykjavík og Tjarnarskóla, sem og messur á vegum Kvennakirkjunnar og Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Fyrirbænastund er haldin einu sinni í viku.

Þar sem Dómkirkjan er kirkja biskups Íslands, fara þar fram biskups- og prestsvígslur.

 

Æskulýðsstarf:

Starfsmenn í barna – og unglingastarfi eru tveir í hlutastarfi.

Sunnudagaskóli er hluti af barnastarfi og fer fram á sunnudögum yfir vetrarmánuðina.

Unglingastarf er einu sinni í viku yfir vetrarmánuði.

Öldrunarstarf:

Eldriborgarastarf fer fram einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina.

Annað:

Við Dómkirkjuna starfar kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar, sem er 87 ára gamall félagsskapur.

Einu sinni í mánuði eru haldin prjónakvöld.

Auk þess eru haldnir AA fundir (2 deildir) tvisvar í viku í safnaðarheimili Dómkirkjunnar.

Fundarsalur í safnaðarheimilinu er leigður út fyrir fundi og veisluhöld sem tengjast Dómkirkjunni.

 

Áætlaður fjöldi athafna við Dómkirkjuna:

Árið 2016 var fjöldi athafna við Dómkirkjuna eftirfarandi:

Brúðkaup 50, útfarir 121, skírnir 22 og fermingar fyrir utan messur 2.

Nánari upplýsingar um Dómkirkjuna, starfsfólk, safnaðarstarf ofl. er að finna á  vefsíðunni domkirkjan.is.

 

Umsóknarfrestur til og með 14. ágúst 2017