Fossvogsprestakall - prestur


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar tvö embætti presta í Fossvogsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Skipað er í embættin frá 1. október 2019 til fimm ára.  
 

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.  

Í Fossvogsprestakalli eru tvær sóknir, Bústaðasókn og Grensássókn, með tæplega 14.300 þúsund íbúa og tvær kirkjur, Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Bústaðasókn og Grensássókn eru á á samstarfssvæði með Ás-, Langholts- og Laugarnessóknum 

Áskilinn er réttur til að skilgreina skyldur sem embættunum tilheyri við prófastsdæmið og biskupsstofu eða önnur kirkjuleg stjórnvöld.  

Vísað er til þarfagreiningar sókna prestakallsins varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni. Þá er bent á vef Bústaðasóknar/prestakalls: kirkja.is og veg Grensássóknar/prestakalls, grensaskirkja.is. 

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.  

Kjörnefnd Fossvogsprestakalls kýs presta úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta.   

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.  

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.  

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.  

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar.  

Um prestsembætti gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.  

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.   

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar hjá Helgu Soffíu Konráðsdóttur, prófasti Reykjavíkurprófastsdæmis vestra 8522970 og á Biskupsstofu, s. 5284000.  
 
Umsóknarfrestur um bæði embættin er til miðnættis fimmtudaginn 1. ágúst 2019.  

Sækja ber um rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.  

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.  

Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti. 

Fossvogsprestakall 
-    Þarfagreining - 

1. Lýsing á prestakallinu og sóknum þess, - starfsaðstöðu og fleira. 

Fossvogsprestakall samanstendur af tveimur sóknum, Bústaðasókn og Grensássókn: 

Bústaðasókn telur tæplega 7400 íbúa. Bústaðakirkja var vigð árið 1971. Áfast kirkjunni er safnaðarheimili, salir og skrifstofurými auk aðstöðu á neðri hæð kirkjunnar, sem hýsir meðal annars Bústaði, félagsmiðstöð ÍTR.  Í safnaðarheimili fer fram ýmisskonar safnaðarstarf, erfidrykkjur, aðrar veislur, auk tónleika og menningarviðburða í kirkju og safnaðarheimili.  

Hjá söfnuðinum starfa: Kirkjuhaldari, djákni, organisti, kórstjórar barna og unglingakóra, húsmóðir, og ræstitæknir. Einnig starfa leiðtogar í barna- og æskulýðsstarfi í minni stöðugildum og hópur kærleikskvenna í öldrunarstarfi. 

Messað er í Bústaðakirkju hvern helgan dag og yfir vetrarmánuðina eru tvær messur, barna- og almenn messa. Þá er messað í Félagsmiðstöðinni Hæðargarði og Maríuhúsi aðra hverja viku yfir vetrartímann. 
Innan sóknarinnar eru 5 leikskólar og 3 grunnskólar. Góð samskipti eru við alla skólana. 

Barna og æskulýðsstarf hefur verið sameiginlegt með sóknunum þannig að barnastarf hefur farið fram í Bústaðakirkju og æskulýðsstarf í Grensáskirkju. 

Grensássókn telur tæplega 7000 íbúa. Safnaðarheimli var vígt 1972 og Grensáskirkja árið 1996. Safnaðarheimilið er áfast kirkjunni, salir og skrifstofurými auk aðstöðu á neðri hæð kirkjunnar, sem hýsir ýmsa starfsemi þjóðkirkjunnar og Hjálparstarf kirkjunnar. Í safnaðarheimili fer fram ýmisskonar safnaðarstarf, erfidrykkjur, aðrar veislur, auk tónleika og menningarviðburða í kirkju og safnaðarheimili. 

Hjá söfnuðinum starfa: Organisti, æskulýðsfulltrúi, skrifstofustjóri og kirkjuvörður. Einnig starfa leiðtogar í barna- og æskulýðsstarfi í minni stöðugildum. Messað er í Grensáskirkju hvern helgan dag. Þá er messað hjá eldri borgurum í Furugerði 1, Sléttuvegi 11 – 13 og Hvassaleiti 56 – 58, og í Múlabæ og á Vistheimilinu Mörk á stórhátíðum. 

Barna og æskulýðsstarf hefur verið sameiginlegt með sóknunum þannig að barnastarf hefur farið fram í Bústaðakirkju og æskulýðsstarf í Grensáskirkju. 

2. Kröfur um sérstaka þekkingu, hæfni eða reynslu í safnaðarstarfi og stjórnun. 
Fossvogsprestakall varð til þann 1. júní 2019 við sameingingu Bústaða- og Grensásprestakalla. Sóknarprestur og tveir prestar munu þjóna prestakallinu. Þeir munu í samstarfi við sóknarnefndir móta þjónustuna. 

Leitað er eftir umsækjendum sem hafa víðtæka og farsæla reynslu í kirkjustarfi, búa yfir jákvæðni fyrir nýjungum og auðsýna frumkvæði og útsjónarsemi í starfi. Vilji og hæfileiki í samstarfi og teymisvinnu þarf að vera fyrir hendi. Færni og reynsla í kirkjulegri þjónustu, sem og skýr og sterk framsetning í boðun orðins, er grundvallaratriði ásamt færni til jákvæðrar notkunar þeirra samfélagsmiðla sem mest eru notaðir og áhrif hafa. Í annað embættið er sérstaklega leitað eftir reynslu, menntun og færni í fræðslustarfi og sálgæslu. Þeim aðila verður falið að efla fræðslu og sálgæslustarf innan sóknanna. 

Mikilvægt er að prestarnir hafi góða samskiptafærni ásamt vilja og getu til að starfa í teymi. Áhersla er lögð á skipulags- og samskiptahæfni, jákvæðni fyrir nýjungum, frumkvæði, útsjónarsemi og skipulagshæfni.   

Prestarnir hafa ásamt öðru starfsfólki sóknanna það hlutverk að efla safnaðarvitund og bjóða upp á fjölbreytt starf. Þjónusta og vinnuaðstaða prestanna mun verða í báðum kirkjunum og því náið samstarf við starfsfólk safnaðanna beggja.  

3. Greining á helstu styrkleikum og veikleikum safnaðarstarfsins. 
Í sóknunum starfa Kirkjukór og Kammerkór Bústaðakirkju, Barna- og unglingakórar Bústaðakirkju, Gospelkór Bústaða- og Árbæjarkirkju, Kirkjukór Grensáskirkju og Glæður, kór Kvenfélags Bústaðasóknar. Þá eru öflugir messuþjónahópar í báðum sóknum. 

Foreldramorgnar, eldri borgarastarf, 12 spora starf, hjónafræðsla, núvitund, æskulýðsstarf, barnastarf, bænastundir, fermingarfræðsla, prjónakaffi, kvenfélag, bleikur október, aðventuhátíð, karlakaffi, skóla- og hópaheimsóknir og AA fundir hafa verið í sóknunum og er vilji til að efla þetta starf og auka við fjölbreytni þess. 

Mikilvægt verkefni er að efla fræðslustarf og almennar samverur i kirkjunni. Sérstaklega hefur reynst erfitt að ná til unglinganna og yngra fólks í sama mælir og áður var. Drengjum hefur fækkað verulega í kirkjustarfinu og mikið verk að vinna að ná betur til þeirra. 
Margir einstaklingar tengjast starfi beggja kirknanna og fólk hefur reynst fúst að leggja ýmiskonar átaksverkefnum lið. 

Eignarstaða sóknanna beggja er sterk en daglegur rekstur er í járnum. 

4. Helstu áherslur sóknarnefnda í safnaðarstarfi. 
Sóknarnefndirnar tvær vilja standa vörð um og efla það starf sem fyrir er í söfnuðunum. Þær telja að tækifæri felist í hinu nýja prestakalli og því, að þrír prestar muni þjóna prestakallinu. Þannig gefst tækifæri til að sinna vel helgihaldi og fjölbreyttu safnaðarstarfi.  

Viðvera prestanna í hvorri kirkju fyrir sig er mikilvæg. Fastir viðtalstímar og að prestarnir séu virkir í mannlífi og viðburðum innan sóknanna. 

Gott samstarf hefur verið við íþróttafélögin í sóknunum, skólana og önnur félagasamtök. Mikilvægt er að viðhalda því og efla. 

Umsóknarfrestur til og með 1. ágúst 2019