Hvalfjarðarstrandarprestakall - sóknarprestur


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti sóknarprests í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi. Skipað er í embættið frá 1. september 2019 til fimm ára.

Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti sóknarprests í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi. Skipað er í embættið frá 1. september 2019 til fimm ára.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur. 

Í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli er fjórar sóknir, Akranessókn, Innra-Hólmssókn, Leirársókn og Saurbæjarsókn, með rúmlega  8.000 íbúa og  fjórar kirkjur, Akraneskirkja,  Leirárkirkja, Hallgrímskirkja í Saurbæ og Innra- Hólmskirkja. 
Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Auglýsing þessi og þarfagreining er birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is undir laus störf. Þá er bent á vef Akranessóknar akraneskirkja.is/ 

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. 

Kjörnefnd Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta.  Báðum þessum nefndum er veittur tímabundinn rafrænn aðgangur að umsóknum og fylgigögnum með þeim. 

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum. 

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið. 

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari. 

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar. 

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta. 

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs. 
Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar hjá prófasti Vesturlandsprófastsdæmis, sr. Þorbirni Hlyn Árnasyni í s. 698 8300 og skrifstofustjóra Biskupsstofu, Guðmundi Þór Guðmundssyni s. 528 4000. 

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis þriðjudaginn 25. júní 2019. 
Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram. 
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. 
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti  


Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakall
-    Þarfagreining -

1. Lýsing á prestakallinu og sóknum þess, - starfsaðstöðu og fleira.
Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakall samanstendur af fjórum sóknum:
Akranessókn með tæplega 7500 íbúa. Akraneskirkja var vígð árið 1896. Gegnt kirkjunni stendur safnaðarheimilið Vinaminni en þar eru skrifstofur presta og starfsfólks, stór safnaðarsalur þar sem fram fer ýmisskonar safnaðarstarf, erfidrykkjur, aðrar veislur, tónleikar og menningarviðburðir. Við safnaðarheimilið stendur gamalt skólahús sem söfnuðurinn hefur yfirráð yfir, þangað er hægt að sjónvarpa fjölmennum athöfnum og þar er einnig salur sem er nýttur undir fermingarfræðslu, barna og æskulýðsstarf. 

Hjá söfnuðinum starfa: í einu stöðugildi skrifstofustjóri, útfarstjóri og kirkjugarðsvörður (100% starf), organisti (100%), kirkjuvörður (80%) og umsjónarmaður safnaðarheimilis (80%). Einnig starfa leiðtogar í barna- og æskulýðsstarfi í minni stöðugildum.

Messað er í Akraneskirkju hvern helgan dag og yfir vetrarmánuðina er messað einu sinni í mánuði á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða.
Innan sóknarinnar eru 4 leikskólar, 2 grunnskólar og fjölbrautaskóli. Góð samskipti eru við alla skóla og hefur prestur safnaðarins komið sem gestur í lífsleiknikennslu í Fjölbrautaskólanum á hverju hausti.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands starfrækir sjúkrahús á Akranesi. Sjúkrahúsið er með þrjár legudeildir, fæðingardeild, skurðstofu, slysavarðstofu og heilsugæslu. Prestar prestakallsins sinna vaktþjónustu við sjúkrahúsið t.d. bænastundum við dánarbeð og samtölum við sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. 

Saurbæjarsókn á Hvalfjarðarströnd með rúmlega 140 íbúa. Hallgrímskirkja í Saurbæ er vígð árið 1957, helguð minningu sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar sem þar var prestur. Hallgrímskirkja í Saurbæ er ein af höfuðkirkjum landsins og nýtur sérstöðu sem slík. Talsverður fjöldi  ferðamanna sækir staðinn heim. Skógarmenn KFUM reka æskulýðsmiðstöð í Vatnaskógi, þar eru sumarbúðir og á veturna koma þúsundir fermingarbarna þangað af mest öllu landinu á fermingarnámskeið.

Námskeiðin enda nær öll með heimsókn í Hallgrímskirkju í Saurbæ.
Kirkjan er stór og þarfnast mikil viðhalds. Styrkir hafa fengist úr jöfnunarsjóði sókna og nokkrar framkvæmdir eru fyrirhugaðar sumarið 2019. Mikilvægt er að prestar vinni með sóknarnefnd að því að afla áframhaldandi styrkja og sinna viðhaldi á kirkjunni.
Í Hallgrímskirkju er messað 8 sinnum á ári, auk hátíða.

Leirársókn með rúmlega 300 íbúa. Leirárkirkja er vígð árið 1914. Leirársöfnuður er stærstur af sveitasöfnuðunum þremur. Byggðar- og stjórnsýluskjarninn að Hagamel tilheyrir söfnuðinum, en kirkjan stendur um 4 kílómetra frá kjarnanum. Heiðarskóli, grunnskóli Hvalfjarðarsveitar, er í næsta nágrenni Leirárkirkju. Leikskólinn Skýjaborg er á Hagamel.

Innan Leirársóknar, undir Hafnarfjalli, er Ölver, sumarbúðir KFUM og KFUK.
Í Leirárkirkju er messað 8 sinnum á ári, auk hátíða.
Innra-Hólmssókn með rúmlega 150 íbúa. Innra-Hólmskirkja var vígð árið 1892.

Kirkjan er timburkirkja en steypt var utan um hana árið 1952 auk þess sem reist var steypt forkirkja. Töluverðar múrskemmdir eru á kirkjunni en ekki er vitað hvert ástandið er á hinu upphaflega timbri fyrir innan múrinn. Ljóst er að ráðast þarf í umfangsmiklar og kostnaðarsamar endurbætur í kirkjunni. Fyrir liggur að sækja þarf um styrki til að framkvæma ástandsskoðun og vinna verkáætlun. 
Við kirkjuna er lítið þjónustuhús með snyrtingu. Þar er einnig boðið til kirkjukaffis á messudögum.

Í prestakallinu eru rúmlega 50 útfarir, 80 skírnir og 30 hjónavígslur á hverju ári. Flestar þessara athafna fara fram við Akraneskirkju. 

2. Kröfur um sérstaka þekkingu, hæfni eða reynslu í safnaðarstarfi og stjórnun.
Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakall varð til við niðurlagningu Saurbæjarprestakalls 5. apríl 2019 og runnu sóknir þess undir Garðaprestakall á Akranesi. Því er um nýja starfseiningu að ræða. Sóknarprestur og tveir prestar þjóna prestakallinu. Þeir munu í sameiningu og í samstarfi við sóknarnefndir móta þjónustuna til frambúðar.

Mikilvægt er að prestarnir hafi vilja og getu til að starfa í teymi hver með öðrum og með öðru starfsfólki. Skrifstofuaðstaða prestana þriggja mun verða við Akraneskirkju og því er mikið samstarf við starfsfólk safnaðarins. Einnig er æskilegt að prestarnir geti haft aðstöðu í Saurbæ.

Aðstæður safnaðanna fjögurra eru ólíkar. Æskilegt er að hefja barna- og æskulýðsstarf í Hvalfjarðarsveit. Það yrði sameiginlegt starf Saurbæjar-, Leirár- og Innra-Hólmssókna en einn grunnskóli og leikskóli eru starfandi í sveitinni. Vegna fjárhagsaðstæðna safnaðanna er mikilvægt að prestarnir komi sjálfir að þessu starfi. 

Í Akraneskirkju er barna- og æskulýðsstarf auk öldrunarstarfs og vilji er til að auka starf safnaðarins. Mikilvægt er að prestarnir séu reiðubúnir til að sinna með sem fjölbreyttustum hætti almennu safnaðarstarfi í samvinnu við annað starfsfólk. 

Vilji er til þess að auka prestsþjónustu við hinar ýmsu stofnanir í prestakallinu, sérstaklega sjúkrahúsið og hjúkrunarheimilið. Prestarnir þurfa að vera reiðubúnir að móta þessa þjónustu og sinna henni í samvinnu sín á milli. 
Mikil fjöldi athafna er í prestakallinu og munu prestar reyna að skipta þeim á milli sín eftir bestu getu til að jafna starfsálag.

3. Greining á helstu styrkleikum og veikleikum safnaðarstarfsins.
Í prestakallinu starfa tveir kórar.
Kór Akraneskirkju telur um 50 meðlimi og starfar undir stjórn organista safnaðarins.

Kórfélagar syngja við kirkjulegar athafnir og kórinn stendur auk þess fyrir fjölbreyttu tónleikahaldi. Mikill metnaður er í starfi kórsins og er hann einn af burðarstólpum menningarlífsins á Akranesi. Með vinnu sinni hafa organistinn og kórinn aukið mjög veg kirkjunnar á Akranesi. Mikilvægt er að prestar prestakallsins hlúi að þessu starfi með góðri samvinnu við organista og kór.

Kór Saurbæjarprestakalls er sameiginlegur kór Saurbæjar-, Leirár- og Innra-Hólmssókna, en söfnuðirnir eru í sameiningu með organista í 42,5% starfi. Kórinn syngur við kirkjulegar athafnir og stendur auk þess fyrir tónleikum á hverju ári. Kórinn er kjarninn í starfi safnaðanna.

Kórar prestakallsins eru með helstu styrkleikum starfsins en auk þess er velvilji í garð kirkjunnar mikill og fjöldi fólks sem kemur að starfi hennar með einverju móti.

Á Akranesi er öflugt barna- og unglingastarf og opið hús fyrir eldri borgara einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina.
Í samfélaginu er velvilji í garð kirkjunnar og margir einstaklingar tengjast starfi hennar. Rétt er að taka fram að söfnuðirnir eru allir skuldlausir og bera því ekki afborganir eða vaxtagreiðslur.

4. Helstu áherslur sóknarnefnda í safnaðarstarfi.
Sóknarnefndirnar fjórar vilja standa vörð um og efla það starf sem fyrir er í söfnuðunum. Þær telja að tækifæri felist í hinu nýja prestakalli og því að þrír prestar muni þjóna prestakallinu. Þannig gefst tækifæri til að sinna vel helgihaldi og fjölbreyttu safnaðarstarfi. 
 

Umsóknarfrestur til og með 25. júní 2019