Keflavíkurprestakall - prestur


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Keflavíkurprestakalli, Kjalarnesprófastsdæmi. Skipað er í embættið frá 1. október 2017 til fimm ára.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Í Keflavíkurprestakalli er ein sókn, Keflavíkursókn, með rúmlega átta þúsund íbúa og eina kirkju, Keflavíkurkirkju. Keflavíkursókn er á samstarfssvæði með Grindavíkur-, Kirkjuvogs-, Njarðvíkur-, Ytri-Njarðvíkur-, Útskála-, Hvalsnes- og Kálfatjarnarsóknum.  

Vísað er til þarfagreiningar sóknar prestakallsins varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni. Þá er bent á vef Keflavíkurprestakalls: http://www.keflavikurkirkja.is

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta.

Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.
Kjörnefnd prestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. 

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar.

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu, s. 5284000, hjá sóknarpresti Keflavíkurprestakalls, sr. Erlu Guðmundsdóttur, s. 4204300 og prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, sr. Þórhildi Ólafs, s. 5205700.

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis miðvikudaginn 9. ágúst 2017.

Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti 

Þarfagreining Keflavíkursóknar

Keflavíkursókn (Lýsing á prestakallinu og sóknum þess)

Keflavíkursókn er ein af fjórum sóknum í Reykjanesbæ, ásamt Njarðvíkursókn, Ytri-Njarðvíkursókn og Kirkjuvogssókn. Sóknin tilheyrir Kjalarnessprófastsdæmi. Í Keflavíkursókn eru fjórir leikskólar, þrír grunnskólar, sambýli, eitt öldrunarheimili ásamt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Fjárhagsstaða safnaðarins er ágæt.  Söfnuðurinn hefur eina starfsstöð sem er veglegt safnaðarheimili, Kirkjulundur og eina kirkju.  Keflavíkurkirkja er staðsett í elsta byggðarkjarna Keflavíkur. Þann fyrsta desember 2016 voru íbúar í póstnúmeri 230 8.306. Þeir skiptast þannig, að um 7% eru undir skólaaldri, 13% á grunnskólaaldri 5% á framhaldskólaaldri, 23% á bilinu 20-34 ára, 39% á aldrinum 35 – 64 ára og 13% eru 65 ára og eldri.

Almennt um kirkjustarfið (Lýsing á umfangi prestsþjónustunnar og starfsaðstöðu)

Söfnuðinum þjóna sóknarprestur og prestur í fullu starfi. Einnig eru organisti, rekstrarstjóri og umsjónarmaður/kirkjuvörður í fullu starfi. Þá eru nokkrir verktakar í hlutastörfum við tónlistarstarf kirkjunnar, barna- og æskulýðsstarf. Auk þessa koma margir sjálfboðaliðar að starfi safnaðarins. Starfsaðstaða er eins og best verður á kosið

Í Keflavíkurkirkju eru guðsþjónustur og sunnudagaskóli hvern sunnudag yfir vetrarmánuðina en yfir sumartímann eru kvöldmessur með ýmsu sniði.  Eftir messu er boðið upp á súpu í safnaðarheimilinu. Einnig eru vikulega kyrrðarstundir í hádeginu á miðvikudögum, og lýkur þeirri samveru með sameiginlegri máltíð.  Allt hópa- og fræðslustarf safnaðarins fer fram í safnaðarheimilinu.  Auk helgihalds fer fram barna- og unglingastarf í kirkjunn.  Þar má nefna skapandi starf í kirkjunni sem er söng- og leiklistarstarf fyrir börn í 2.-10.bekk.  Unglingastarf kirkjunnar er í samstarfi við KFUM og KFUK í Keflavík og fer fram í félagshúsi KFUM og KFUK að Hátúni  36.  Mikið tónlistarlíf er við Keflavíkurkirkju. Starfandi eru þrír kórar, Kór Keflavíkurkirkju, ungmennakórinn Vox Felix og Eldey, kór eldri borgara á Suðurnesjum. 

Þá koma hópar AA samtakanna og CODA vikulega saman í kirkjunni. Á hverjum vetri er boðið upp á fræðslukvöld með ýmsu sniði.

Keflavíkurkirkja er vel búin til þess að þjóna fjölbreyttum hópum og eru aðgengismál góð.

Prestar á Suðurnesjum sinna samverum og guðsþjónustum á öldrunarheimilum með vikulegum stofugangi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Einnig skipta þeir með sér bakvaktarsíma sem þjónar öldrunarheimilum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og lögreglunni á Suðurnesjum.

Í bæjarfélaginu eru fjölbreytt íþrótta- og tónlistastarf ásamt öðru félagstarfi.

Kærleiksþjónusta er mikilvægur þáttur í starfi Keflavíkurkirkju. Boðið er upp á sálgæslu eftir samkomulagi við presta. Þá eru sorgarhópar virkir á hverjum vetri.  Keflavíkurkirkja hefur umsjón með úthlutunum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar og Velferðarsjóð Suðurnesja til þeirra sem búa við fátækt.

Keflavíkurkirkja er græn kirkja, leggur áheyrslur á umhverfisvernd og samfélagslega þætti.

 

Hvað þarf Keflavíkurkirkja (Kröfur um sérstaka þekkingu, hæfni eða reynslu)

 • Lifandi áhuga á blómlegu safnaðarstarfi fyrir börn og fullorðna
 • Hafa reynslu af að starfa í hóp og vera hluti af liðsheild
 • Frumkvæði og skapandi hugsun
 • Sjálfstæði í vinnubrögðum
 • Föst viðvera á skrifstofu

 

Styrkleiki og veikleiki Keflavíkursóknar

Styrkleikar safnaðarins felast í:

 • Góðum tengslum kirkjunnar við fólkið, fyrirtæki, stofnair og félagasamtök í sókninni
 • Öflugt sjálfboðaliðastarf
 • Kirkjan nýtur velvildar og trausts
 • Vilji til að vera framúrskarandi kirkja

Veikleikar safnaðrins eru:

 • Fækkun þjóðkirkjuaðildar

 

Væntingar safnaðarins (Helstu áherslur sóknarnefndar og héraðsnefndar)

Sóknarnefnd vill:

 • Að verðandi prestur sé búsettur í sókninni
 •  Að efla áfram tónlistarlíf kirkjunnar og skiptir máli að prestar nýti það sem mest við helgihald og fræðslu.
 • Að kirkjan sé stór hluti af lífi samfélagsins á svæðinu og áhersla sé á uppbyggjandi og nærandi fræðslustarf sem og að til staðar sé öflugt barna- og æskulýðsstarf á vegum safnaðarins.  Hefur söfnuðurinn áhuga á að starfið í kirkjunni endurspegli tengingu kirkjunnar við samfélagið og sögu þess. Prestar kirkjunnar þurfa að vera meðvitaðir um þetta samhengi safnaðarstarfsins og hafa áhuga á að láta sig það varða með virkri þátttöku og uppbyggilegum hætti.

Áhersla sóknarnefndar Keflavíkursóknar næstu ár er að efla starf kirkjunnar með öllu  fólki í sókninni, þannig að allir geti fundið sér stað í kirkjunni. Með skýrri stefnumótun, góðu skipulagi og framsæknu hugarfari er okkur allir vegir færir.

Gildi Keflavíkurkirkju eru: Umhyggja, gleði og kraftur

 

Umsóknarfrestur til og með 9. ágúst 2017