Langanes- og Skinnastaðarprestakall - prestur


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Langanes- og Skinnastaðarprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Skipað er í embættið frá 1. september 2019 til fimm ára. 

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur. 

Í Langanes- og Skinnastaðarprestakalli eru sex sóknir með tæplega þúsund íbúa og er sóknarkirkja í hverri sókn. Þær eru; Garðs-, Raufarhafnar-, Skinnastaðar-, Snartarstaðar-, Svalbarðs- og Þórshafnarsókn. 
Áskilinn er réttur til að skilgreina skyldur sem embættinu tilheyri við prófastsdæmið og biskupsstofu eða önnur kirkjuleg stjórnvöld. 
Vísað er til þarfagreiningar sókna prestakallsins varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni.   

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. 

Kjörnefnd prestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta.  
Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum. 

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið. 

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari. 

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar. 

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta. 
Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.  

Prestsembættinu fylgir prestsbústaðurinn Sunnuvegur 4, Þórshöfn, Langanesbyggð Presti er skylt að hafa þar aðsetur og lögheimili. Drög að haldsbréfi fyrir prestsbústaðinn eru aðgengileg hér;  https://kirkjan.is/geymt-efni/haldsbref/

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar  hjá sr. Jóni Ármanni Gíslasyni, prófasti Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis og sóknarpresti Langanes- og Skinnastaðarprestakalls, s. 465 2250 og á Biskupsstofu, s. 5284000. 

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis þriðjudaginn 18. júní 2019. Áskilinn er réttur, ef þörf krefur, til að fresta störfum kjörnefndar prestakallsins og þar með kosningu til embættisins fram í ágúst mánuð 2019, vegna sumarleyfa. 
Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram. 

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. 
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti  

Þarfagreining vegna nýs prestsembættis á Þórshöfn.

Gert er ráð  fyrir að meginembættisskyldur þessa prestsembættis felist í þjónustu við Þórshafnar- og Svalbarðssóknir, líkt og verið hefur, auk gagnkvæmra afleysinga og stoðþjónustu við aðrar sóknir hins samaeinaða prestakalls. Prestsetur er á Þórshöfn.
Þórshafnarsókn tilheyrir Langanes- og Skinnastaðaprestakalli. Í því prestakalli eru sex sóknir:
Svalbarðssókn í Þistilfirði ( 92) Þórshafnarsókn (399) Samtals (491).
1. janúar 2018 - Garðssókn (72 ), Skinnastaðarsókn (78), Snartarstaðasókn (156 ), Raufarhafnarsókn (193) Samtals ( 499).  

Þórshafnarsókn samanstendur af þéttbýlinu Þórshöfn og dreifbýlinu Langanesi, landfræðileg afmörkun við Hafralónsá í Þistilfirði. Innan Þórshafnarsóknar eru tvær kirkjur; Þórshafnarkirkja á Þórshöfn, sem er sóknarkirkjan, einnig er gömul, vígð timburkirkja á Sauðanesi á Langanesi sem Þórshafnarkirkja hefur nú leyst af hólmi, þó athafnir séu þar af og til eftir sérstökum óskum. Kirkjugarður Þórshanarsóknar er staðsettur á Sauðanesi.

Í Þórshafnarsókn var mannfjöldi þann 1 desember 2018 alls 427 en þar af voru 254 í þjóðkirkjunni (16 ára og eldri). Yngri en 16 ára voru alls 83. Í sókninni eru allmargir íbúar af erlendu bergi brotnu og eru allflestir kaþólskir en hafa þeir fengið afnot af Þórshafnarkirkju að höfðu samráði við sóknarprest.
Þórshafnarkirkja er starfsstöð Þórshafnarsóknar en einnig hefur sóknarprestur reglulega heimsótt hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust á Þórshöfn og oft verið þar með helgistund fyrir aldraða íbúa heimilisins.
Organisti er við Þórshafnarkirkju í 20% starfshlutfalli.

Áætlaður fjöldi guðsþjónusta yfir árið eru um 8-10 en er það allt í samráði sóknarprests og sóknarnefndar, að teknu tilliti til kirkjukórs og fleiri þátta. Starf bæði kirkjukórs og sóknarnefndar er allt unnið í sjálfboðavinnu en enginn launaður starfsmaður er í sókninni, að undanskildum presti. 

Barnastarf hefur verið í Þórshafnarkirkju og áhersla á að það starf verði áfram í jafngóðu horfi, sem og almennt æskulýðs- og fræðslustarf og æskilegt er ef hægt verði að blanda tónlistarstarfi saman við þær samveru- og fræðslustundir. 

Í Þórshafnarkirkju er ágætt safnaðarheimili á neðri hæð kirkjunnar, með góðum sal og eldhúsaðstöðu sem nýttur hefur verið fyrir samkomur af ýmsu tagi. Á þeirri hæð er einnig skrifstofa prests.

Einbýlishús, um 120 m2 ásamt bílskúr ca 40 m2, tilheyrir embætti prests á Þórshöfn og stendur við Sunnuveg eins og kirkjan.
Þórshöfn er sjávarpláss þar sem fiskvinnsla hefur stærstan hlut, einnig er stundaður landbúnaður í sveitum innan Þórshafnarsóknar. Verslun er á Þórshöfn, heilsugæsla, bankaútibú, söluskáli, veitingastaður, gistiheimili, félagsheimili og  bifreiðaverkstæði.

Á Þórshöfn /Þórshafnarsókn er grunnskóli með um 70 nemendum, leikskóli með 23 börnum og tónlistarskóli í tengslum við grunnskólann. Hjúkrunar- og dvalarheimili er einnig á Þórshöfn. Á Þórshöfn er ágætt íþróttahús með innisundlaug en öflugt íþróttastarf af ýmsu er þar iðkað meðal allra aldurshópa allt árið.
Ósnortin náttúra er örskammt undan og má þar nefna Langanesið og Þistilfjörð með sínar náttúruperlur, fuglabjörg, fallegar gönguleiðir, sérstæðar klettamyndanir s.s. á Rauðanesi, einnig er innan við klukkustundar akstur í þjóðgarðinn og heimsækja t.d Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur.

Í sókninni er óskað eftir að prestur hafi góða þekkingu á almennu safnaðarstarfi og stjórnun, ekki síst í barna- æskulýðsstarfi, sem rík áhersla skal lögð á.
Styrkleikar Þórshafnarsóknar eru aukinn áhugi í barna- og æskulýðsstarfi sem hefur vaxið undanfarið, einnig áhugasamur kirkjukór, sem vinnur óeigingjarnt starf. Góð aðstaða í kirkjunni er einnig styrkur og safnaðarheimilið nýtist vel í tengslum við allt kirkjustarf og samkomur.

Helstu veikleikar í kirkjustarfi hafa m.a. verið miklir erfiðleikar við að fá organista til starfa, sem er þekkt á landsbyggðinni og hefur það hamlað helgihaldi á ýmsan hátt, einnig er það viss veikleiki að prestur hefur ekki verið búsettur á staðnum. 

Áherslur sóknarnefndar varðandi safnaðarstarf í hnotskurn eru þær helstar að áfram verði öflugt barna- og æskulýðsstarf í söfnuðinum, einnig reglulegar heimsóknir á hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust í samráði við stjórnendur þar, sem og önnur þjónusta við aldraða íbúa sóknarinnar eftir þörfum og óskum. Einnig að prestur verði almennt virkur í samfélaginu meðal íbúa og að hann hafi fasta viðverutíma á skrifstofu sinni í kirkjunni þar sem sóknarbörn geti leitað til hans ef þörf krefur.

Svalbarðssókn í Langanesprestakalli ásamt Þórshafnarsókn. Íbúar í sókninni eru um 92 og af þeim eru 80 í þjóðkirkjunni 1. desember 2018.
Sóknin tilheyrir Eyjafarðar- og þingeyjarprófastsdæmi.

Í Svalbarðssókn er hvorki grunnskóli, leikskóli eða tónlistarskóli. Börn úr sókninni fara í skóla til Þórshafnar.
Söfnuðinum þjónar prestur, organisti og kirkjukór er sameiginlegur með Þórshafnarsókn,  en aðrir starfsmenn eru ekki. 

Söfnuðurinn hefur eina starfsstöð og er það Kirkjan á Svalbarði, og er þar messað nokkrum sinnum á ári, vel er mætt í athafnir. Börn og ungmenni sóknarinnar hafa sótt barna- og æskulýðsstarf í Þórshafnarsókn í tengslum við grunnskóla og leikskóla.
Svalbarðssókn lagði áherslu á barna- og æskulýðsstarf meðan grunnskóli var starfræktur í sókninni en það lagðist af með honum. 

Styrkleikar safnaðarins felast í góðum tengslum kirkjunnar við fólkið í söfnuðinum. Fjárhagsstaða safnaðarins er ágæt og engar langtímaskuldir íþyngja honum. 
Kirkjan er 170 ára gömul, verður farið í það í sumar að gera sökkul undir henni upp og laga það sem bráð liggur á.

Markmið safnaðarins er að öllu starfi sé vel sinnt.


 

Umsóknarfrestur til og með 18. júní 2019