Langholtsprestakall - prestur


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í 50% starfshlutfalli í Langholtsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Skipað er í embættið frá 1. september 2019 til fimm ára. 

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur. 

Í Langholtsprestakalli er ein sókn, Langholtssókn, með rúmlega 5.500 íbúa og eina kirkju, Langholtskirkju. Langholtssókn er á samstarfssvæði með Ás-, Bústaða-, Grensás- og Laugarnessóknum.  
Verkefni prests í Langholtssókn verða að stærstum hluta á sviði barna og unglingastarfs: 

  • Umsjón og viðvera í barnastarfi ásamt aðstoðarfólki.  
  • Umsjón hópastarfs fyrir 1. 2. bekk og 3. - 4. bekk.  
  • Umsjón TTT starfs.
  • Umsjón fermingarfræðslu ásamt sóknarpresti.
  • Leiða helgihald tvær helgar í mánuði.
  • Önnur verkefni í samráði við sóknarprest og sóknarnefnd.

Vísað er til þarfagreiningar sóknar prestakallsins varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni. Þá er bent á vef Langholtssóknar/prestakalls: http://langholtskirkja.is/

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups. 

Kjörnefnd Langholtsprestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. Báðum þessum nefndum er veittur tímabundinn rafrænn aðgangur að umsóknum og fylgigögnum með þeim. 

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum. 

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið. 

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari. 

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar. 

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta. 
Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs. 

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu, s. 5284000, hjá sr. Guðbjörgu Jóhannesdóttur, sóknarpresti Langholtsprestakalls, s. 861 7918, formanni sóknarnefndar Elmari Torfasyni, s. 852 6720 og prófasti Reykjavíkurprófastsdæmis,vestra. sr. Helgu Soffíu Konráðsdóttur í s. 860 9997. 

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis miðvikudaginn 5. júní 2019. 

Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram. 
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. 
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar https://kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti  

Þarfagreining Langholtssóknar :

1. Lýsing á prestakallinu og sóknum þess :  
Í Langholtsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi-vestra er ein sókn; Langholtssókn.  Fjöldi íbúa er 5,535 og fjöldi skráðra í þjóðkirkju er 3,758.  Langholtssókn er á samstarfssvæði fjögurra safnaða í og við Laugardal.  Starfsstöðin er kirkja og safnaðarheimili við Sólheima 11-13, 104 Reykjavík.  Starfsaðstaða er góð í kirkju og safnaðarheimili sem hvoru tveggja er sæmilega við haldið.  Skrifstofa æskulýðsprests er á efri hæð safnaðarheimilis. 

Í Langholtssókn starfa :  Sóknarprestur, organisti og kirkjuvörður í fullu starfi.  Að auki starfa við söfnuðinn í hlutastörfum; þrjár manneskjur í barnastarfi, húsmóðir safnaðarheimilis auk fjölda sjálfboðaliða sem starfa að eldri borgara starfi, messuþjónustu, sem og í nefndum og ráðum ólíkra þátta safnaðarstarfsins.  Söfnuðurinn rekur að auki kórskóla fyrir börn og unglinga, fyrir kórgjöldin eru laun fimm kórstjóra greidd.  Auk kirkjukóranna tveggja Kórs Langholtskirkju og Gradualekórs Langholtskirkju, hefur Graduale Nobili og Söngsveitin Fílharmónía æfingaðastöðu í Langholtskirkju og taka þátt í messusöng.  
Unnið er samkvæmt starfsáætlun til árs í senn, í samræmi við fjárhagsáætlun. 

2. Lýsingu á umfangi prestsþjónustunnar :
Einkunnarorð Langholtskirkju eru : ,,Syngjandi kirkja í Langholtshverfi”.     
Messað er alla sunnudaga frá byrjun ágúst fram yfir miðjan júní, haldar eru vikulegar samverustundir eldri borgara, helgistund í hádegi, auk barna, unglinga og kórastarfs virka daga.  Barna og unglingastarf sem starfrækt er auk kóra, 6-7 ára hópur, 8-9 ára hópur, 10-12 ára hópur og fermingarfræðsla. 

3.  Kröfur um sérstaka þekkingu, hæfni eða reynslu :
Leitað er að manneskju sem er viljug til að vinna sem hluti af teymi samstarfsfólks í Langholtssókn.  Hæfni, reynsla, metnaður og áhugi á barna og unglingastarfi er skilyrði auk færni og sveigjanleika í mannlegum samskiptum.  Í Langholtssókn er byggt á frjálslyndri guðfræði og jákvætt viðhorf til nýsköpunar í helgihaldi er mikilvæg.  Kostur væri ef viðkomandi byggi yfir færni sem gæti orðið til nýbreytni í safnaðarstarfi.   

4. Greining á helstu styrkleikum og veikleikum safnaðarstarfsins :
Langholtskirkja er eitt besta tónlistarhús landsins, með vönduðum hljóðfærum og er stór hluti safnaðarstarfsins helgaður tónlistaruppeldi, kórastarfi og metnaðarfullum flutningi klassískrar kirkjutónlistar.  Söfnuðurinn er rótgróinn í nokkuð vel afmörkuðu hverfi, menningin frjálsleg og afslöppuð.  Við söfnuðinn er mjög öflugt sjálfboðaliðastarf.  Starf eldri borgara er sem dæmi alfarið rekið af sjálfboðaliðum svo og er öflugt kvenfélag starfandi við sóknina sem hefur reynst ómetanlegur stuðningur við brýn viðhaldsverkefni.
  
Þjóðkirkjumeðlinum hefur fækkað mjög undanfarna tvo áratugi eða svo, sem leitt hefur af sér mikla skerðingu þess fjár sem söfnuðurinn hefur til ráðstöfunar.  Miklar skuldir hvíla á söfnuðinum sem enginn sveigjanleiki er til að greiða niður, því er starfsmannahald í algeru lágmarki og viðhaldi eigna sinnt eftir brýnni þörf.  

5. Helstu áherslur í safnaðarstarfi næstu fimm árin.
Undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á að viðhalda því góða kórastarfi sem verið hefur í Langholtssókn til áratuga og byggt var upp af Jóni Stefánssyni heitnum.  Að auki hefur verið byggt upp hópastarf fyrir börn á virkum dögum.  Stefnt er að því að auka enn við framboð barna og unglingastarfs sem og bæta við kyrrðar-helgihaldi í miðri viku.  Verða þau verkefni í höndum æskulýðsprests ýmist alfarið eða í samstarfi við sóknarprest.  

Umsóknarfrestur til og með 5. júní 2019