Patreksfjarðarprestakall - prestur


Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Patreksfjarðarprestakalli, Vestfjarðaprófastsdæmi. Um 50% starfshlutfall er að ræða. Skipað er í embættið frá 1. apríl 2019 til fimm ára.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Í Patreksfjarðarprestakalli, búa samtals um 1.270 manns. Þar eru átta sóknir, þ.e. Bíldudals-, Breiðuvíkur-, Brjánslækjar-, Haga-, Patreksfjarðar-, Sauðlauksdals-, Saurbæjar- og Stóra-Laugardalssóknir.

Vísað er til þarfagreiningar sókna prestakallsins varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni.

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.
Kjörnefnd prestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta. 

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar.

Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu, s. 5284000, hjá skipuðum sóknarpresti Patreksfjarðarprestakalls, sr. Kristjáni Arasyni, s. 8466569 og prófasti Vestfjarðaprófastsdæmis, sr. Magnúsi Erlingssyni, s. 4563171.

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis þriðjudaginn 22. janúar 2019.

Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti 

Þarfagreining á Patreksfjarðarprestakalli vegna prestsembættis

  1. Lýsing á prestakallinu og sóknum þess

Patreksfjarðarprestakall er víðfeðmt og nær yfir átta sóknir; þrjár í þéttbýli en fimm í dreifbýli.  Í Patreksfjarðarprestakalli eru því átta sóknarkirkjur.  Þetta eru Patreksfjarðarkirkja, Sauðlauksdalskirkja, Breiðavíkurkirkja, Saurbæjarkirkja á Rauðasandi, Bíldudalskirkja, Tálknafjarðarkirkja, Hagakirkja og Brjánslækjarkirkja.  Þessu til viðbótar eru Stóra-Laugardalskirkja, Selárdalskirkja og einnig er kapella á sjúkrahúsinu á Patreksfirði. Í prestakallinu eru 1270 manns með lögheimili.  Af þeim eru 1.007 manns eldri en 16 ára og af þeim eru 761 í þjóðkirkjunni en 246 utan kirkju.

Vegalengdir innan prestakallsins eru allnokkrar og vetrarfærð getur verið erfið.  Frá Bíldudal er ekið fjallveg yfir á Tálknafjörð og aðra heiði yfir á Patreksfjörð.  Eins er yfir fjöll að fara þegar ekið er yfir á Barðaströnd, Rauðasand og Breiðuvík.  Prestur þarf því að hafa til umráða bifreið en greiddur er akstursstyrkur.  Sóknarpresturinn býr í prestssetrinu á Patreksfirði en ekkert prestssetur er fyrir prestinn.  Hann þarf því að útvega sér húsnæði.

Prestakallinu er þjónað af tveimur prestum; sóknarpresti í fullu starfi og presti í hálfu starfi.  Gert er ráð fyrir því að þeir leysi hvorn annan af í sumarleyfum.  Að öðru leyti þurfa þeir að skipta með sér verkum og skal gerður skriflegur samningur þar um, sem sendur er prófasti.

Patreksfjarðarprestakall er í Vestfjarðaprófastsdæmi.  Prófastsdæmið nær yfir allan Vestfjarðakjálkann.  Í prófastsdæminu eru sex prestaköll auk Patreksfjarðarprestakalls.  Prófastsdæmið skiptist upp í þrjú samstarfssvæði.  Svæðið frá Dýrafirði að Ísafjarðardjúpi er eitt samstarfssvæði.  Reykhólasveit og Strandir mynda annað samstarfssvæði.  Patreksfjarðarprestakall er sérstakt samstarfssvæði og þarf því að vera sjálfu sér nægt um alla hluti.  Samgöngur milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar eru ótryggar yfir vetrarmánuðina en verið er að vinna að samgöngubótum.  Prestafundir eru tveir á ári, að vori og hausti til.  Héraðsfundir eru haldnir í lok sumars.  Kirkjumiðstöð er í Friðarsetrinu Holti við Önundarfjörð.  Konur eru í meirihluta presta á Vestfjörðum og hefur svo verið um langt skeið.  Starfsmiðstöð prófastsins er á Ísafirði.

  1. Lýsing á umfangi prestsþjónustunnar, starfsaðstöðu og fleira

Kirkjur prestakallsins eru í góðu lagi.  Fara þarf í viðhaldsvinnu í Breiðavíkurkirkju.  Safnaðarheimili er á Patreksfirði, einnig eru safnaðarheimili á Tálknafirði og á Bíldudal.  Er góð aðstaða til almenns safnaðarstarfs á öllum þessum þremur stöðum.  Verður nú gerð nánari grein fyrir starfinu í sóknunum.

Breiðuvíkursókn er fámennust með fjögur sóknarbörn.  Í Saurbæjarsókn á Rauðasandi búa sjö manns.  Átján manns eiga heima í Sauðlauksdalssókn.  Í Hagasókn á Barðaströnd búa 37 manns.  Í Brjánslækjarsókn á Barðaströnd búa 38 manns.  Í þessum fimm sveitasóknum er messað í samráði við heimafólk.  Sóknirnar hafa ekki fastráðinn organista eða starfandi kóra en reynt er að safna saman kórfólki þegar athafnir eru.  Þegar organisti er ekki tiltækur eru stundum notuð önnur hljóðfæri eins og gítar eða þá að sungið er án undirleiks.

Í Bíldudalssókn eiga heima 222 manns.  Í Stóru-Laugardalssókn við Tálknafjörð búa 268 manns.  Patreksfjarðarsókn er fjölmennust en þar búa 689 manns.  Á Bíldudal og Tálknafirði er sameiginlegur kór og í þessum sóknum er messað einu sinni í mánuði.  Í Tálknafirði er stundum messað í Stóru-Laugardalskirkju.  Á Patreksfirði er kirkjukór og þar er messað hálfsmánaðarlega.  Sameiginlegur organisti er fyrir sóknirnar.

Í þéttbýlissóknunum þremur er reglubundið barnastarf, sem prestarnir stýra og leiða.  Ef prestur spilar ekki sjálfur á hljóðfæri þá þarf hann að gera leitt kirkjuskólasönginn.  Einnig taka prestarnir þátt í félagsstarfi eldri borgara.  Þá er prestsþjónustua við sjúkrahúsið á Patreksfirði og þar eru hafðar helgistundir, þar sem prestarnir predika og leiða sönginn.

Sóknarpresturinn leiðir samstarf prestanna.  Hann sér til þess að sóknarbörn njóti prestsþjónustu við helgiathafnir á tímamótum mannsævinnar, sálgæslu, uppfræðslu og annars þess er tilheyrir almennu safnaðarstarfi.

  1. Kröfur um sérstaka þekkingu, hæfni eða reynslu í safnaðarstarfi

Patreksfjarðarprestakall er víðfeðmt og með margar sóknir.  Launaðir starfsmenn eru fáir og þarf presturinn því að vera fjölhæfur og jafnvígur á ólíkum sviðum prestsþjónustu hvort sem um er að ræða þjónustu við unga sem aldna og við ólíkar aðstæður.  Eins þarf prestur að geta leitt helgihald þótt organisti sé ekki til staðar.  Samskiptahæfni prests þarf að vera í góðu lagi og hann þarf að geta myndað persónuleg tengsl við sóknarbörnin.  Í fámennum sóknum er erfitt að halda úti reglulegu helgihaldi en þar er þess vænst að prestur ræki skyldur sínar við söfnuðinn með húsvitjunum.

Prestsþjónusta á Vestfjörðum útheimtir ferðalög og akstur við ýmsar aðstæður.  Á veturna er ís og snjór á vegum.  Æskilegt er að prestur sé vanur ferðalögum í íslensku dreifbýli.  Hann þarf að vera með bílpróf og eiga bíl.  Greiddur er fastur akstursstyrkur.

  1. Greining á helstu styrkleikum og veikleikum safnaðarstarfsins

Styrkleiki sóknanna felst meðal annars í því að fólk þekkist vel og safnaðarvitund er sterk á hverjum stað.  Flestir unna kirkjunni sinni og eru tilbúnir að rétta prestinum sínum hjálparhönd.  Rík hefð er fyrir starfi sjálfboðaliða í öllum sóknum.

Fámenni dregur úr möguleikum á fjölbreyttu safnaðarstarfi en flestir eru samt opnir fyrir nýjungum í safnaðarstarfi.  Veður og færð geta stundum hamlað ferðalögum og starfi.

Á sumrum eru ferðamenn og gönguhópar á svæðinu og slíkir hópar hafa oft áhuga á að sækja helgihald í sveitakirkjum.  Eru þar ýmis sóknarfæri á að ná til fólks.

  1. Helstu áherslur sóknarnefnda í safnaðarstarfi næstu fimm árin

Fjögur bréf bárust frá sóknarnefndum sem svar við þessum lið.

  • Frá Sauðlauksdalssöfnuði:

Sauðlauksdalskirkja er friðlýst sóknarkirkja og sem slík ekki ætluð ferðamönnum eða sem aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Það er ekki hægt að ætlast til að safnaðarmeðlimir gefi vinnu sína við að halda öllu hreinu og í góðu standi í kirkjunni svo að auðugar hótelkeðjur og ferðaskrifstofur geti grætt á ferðafólki.

Hefð er fyrir þremur messum á ári, um jól, páska og á safnadaginn í byrjun júlí. Auk þess eru aðrar kirkjulegar athafnir og messur við sérstök tilefni í lífi fólks.  Æskilegt er að prestur reyni að messa einu sinni um jól/áramót. Þegar messa fellur niður á auglýstum messudegi vegna veðurs og/eða færðar, verði messað annan dag eða a.m.k. að prestur heimsæki þau fáu heimili sem eru án guðsþjónustu. Nauðsynlegt er að prestur sé á vel búnum bíl til vetraraksturs.

Við teljum að til að geta sinnt skyldum sínum vel, líka úti í sveitunum, þurfi tvo presta í fullt starf.

  • Frá Brjánslækjarsókn:

Við hér í Brjánslækjarsókn gerum engar sérstakar kröfur til sértaks safnaðarstarfs utan þess að messa á stórhátíðum og eftir þörfum ef eitthvað er.

  • Frá Stóru-Laugardalssókn:

Það er niðurstaða okkar í sóknarnefndinni að mesta áherslan eigi að vera á barnastarfinu.  Einnig þarf að sinna eldri borgurum, sem oft eru frekar einmana.  Það er spurning hvort slíkt starf eigi að fara fram í tengslum við tómstundastarf aldraðra eða með húsvitjunum; það þarf presturinn að meta í hverju tilfelli fyrir sig.

  • Frá Bíldudalssókn:

Á Bíldudal er grunnskóli, leikskóli og aðstaða fyrir eldri borgara, Selið.  Presturinn þarf að vera sýnilegur á þessum stöðum og vitja þeirra reglulega.  Kirkjuskóli fyrir börnin er einu sinni í viku yfir veturinn.  Mikilvægt er að presturinn geti myndað persónuleg tengsl við íbúa sóknarinnar.

 

Umsóknarfrestur til og með 22. janúar 2019