Prestur heyrnarlausra


Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2016 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Um skyldur og réttindi sem embættinu fylgja er einkum vísað til starfsreglna um presta nr. 1011/2011.

Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestur heyrnarlausra þjónar heyrnarlausum og heyrnarskertum og fjölskyldum þeirra. Um er að ræða embætti sérþjónustuprests, sem starfrækt hefur verið frá árinu 1981. Prestur heyrnarlausra hefur starfsaðstöðu í Grensáskirkju. Embættið tilheyrir Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og lýtur tilsjón prófasts þar.

Vísað er til þarfagreiningar prófasts og Kirkju heyrnarlausra varðandi frekari upplýsingar um starfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni.

Gerð er krafa um kunnáttu og færni í íslensku táknmáli og að viðkomandi sé reiðubúinn að afla sér viðbótarmenntunar á því sviði eftir því sem þörf krefur.

Matsnefnd um hæfni til prestsembættis, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta mun meta hæfni umsækjenda um embættið.
 

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun sinni, starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.

Umsækjendum ber að skila greinargerð að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.

Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar á Biskupsstofu s. 5284000 og hjá prófasti Reykjavíkurprófastsdæmis vestra s. 4976000.

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis fimmtudaginn 28. september 2017. 

Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008

Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is

Þarfagreining fyrir Kirkju heyrnarlausra

Prestur heyrnarlausra, þjónar heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum, Döff, ásamt fjölskyldum þeirra á öllu landinu. Döff er fólk með heyrnarskerðingu að einhverju leyti sem notar íslenskt táknmál til daglegra samskipta og lítur á sig sem minnihluta mál- og menningarhóp.

Þetta þýðir að söfnuðurinn er ekki bundinn við ákveðna sókn. Flestir sem prestur heyrnarlausra þjónar búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu en einnig eru heyrnarlausir einstaklingar búsettir víðar um landið.

Prestur heyrnarlausra heyrir til Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og tilheyrir hópi sérþjónustupresta kirkjunnar. Sá hópur vinnur mikið saman og hittist reglulega.

Starfsemi og helgihald Kirkju heyrnarlausra fer fram í Grensáskirkju, í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.  Góð skrifstofuaðstaða er fyrir prest heyrnarlausra í kirkjunni, auk fundaraðstöðu.  Gott og náið samstarf er við aðra sérþjónustupresta sem hafa aðstöðu í kirkjunni, sem og sóknarprest og allt starfsfólk Grensáskirkju.

Gott samstarf er við Félag heyrnarlausra, sem er öflugt hagsmunafélag fyrir Döff.

Kirkja heyrnarlausra skipar gríðarlega mikilvægan sess í samfélagi Döff á landinu.
Hefur verið starfandi prestur heyrnarlausra allt frá árinu 1981 og hefur staðan menningarlegt gildi.  Allt helgihald, samtöl og starf Kirkju heyrnarlausra fer fram á móðurmáli Döff, táknmáli.  Túlkaþjónusta er notuð þar sem þarf.

Á Íslandi eru um 300 einstaklingar með táknmál sem sitt móðurmál. Prestur heyrnarlausra sinnir þeim, auk fjölskyldna og er talað um að hverjum einstaklingi fylgi um 10 fjölskyldumeðlimir. Að meðaltali fæðast 2 börn heyrnarlaus eða verulega heyrnarskert á hverju ári. Eins missa árlega nokkrir einstakingar heyrn vegna veikinda eða slysa. 

Aldursskipting heyrnarlausra á landinu er u.þ.b 5% undir skólaaldri, 13 % á grunn- og framhaldsskólaaldri, 16% á aldrinum 20-34 ára, 49% á aldrinum 35-64 ára og 17% 65 ára og eldri.

Almennt um kirkjustarfið
Messur eru 3. sunnudag í hverjum mánuði.  Auk þess eru messur á jólum, páskum og Hvítasunnu.

Sameiginlegar guðsþjónustur eru haldnar með heyrandi söfnuðum bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.
Fermingarfræðsla yfir vetrartímann.  Sum ár er prestur heyrnalausra einnig með fræðslu í samstarfi við aðra söfnuði á landinu.
Helgistund mánaðarlega í starfi Döff eldriborgara
Heimsóknir á sambýli þar sem búa einstaklingar með heyrnarskerðingu
Heimsóknir á Hrafnistu í Reykjavík, þar sem búa heyrnarlausir einstaklingar.
Heimsóknir á vinnustaði þar sem starfa Döff einstaklingar.
Heimsóknir á leikskóla og í grunnskóla þar sem eru Döff börn

Sálgæslusamtöl og heimsóknir til Döff og fjölskyldna
Ýmsir fyrirlestrar og fræðsla.

Stærsti hluti starfs prests heyrnarlausra er sálgæsla og vitjanir.  Fastir viðtalstímar eru í Grensáskirkju og eins eftir þörfum ef óskað er eftir samtali við prest utan viðtalstíma.   Prestur á einnig mikil samskipti við Döff í gegnum stafræna tækni s.s Skype, Facebook, Facetime og fleira.
Auk þess eru mörg samtöl og vitjanir til einstaklinga í heimahús, á stofnanir og vinnustaði.  
Margir Döff búa við félagslega einangrun og því er starf prests heyrnarlausra og sálgæsluhlutverk hans gríðarlega mikilvægt fyrir þennan hóp.  

Kór er starfandi hjá Kirkju heyrnarlausra og syngur hann á táknmáli.  Kórinn kemur að helgihaldi og ýmsu öðru starfi kirkjunnar, sem og þeim athöfnum sem Döff og/eða fjölskylda þeirra óskar eftir. Táknmálskórinn samanstendur af Döff einstaklingum sem syngja á táknmáli. Táknmálskór Kirkju heyrnarlausra er fyrsti táknmálskórinn á Norðurlöndum. Kórinn hefur unnið til verðlauna erlendis og er mjög virkur innan safnaðarins og utan.
Í helgihaldi á stórhátíðum og fermingum, hefur organisti Grensáskirkju spilað.
Sjálfboðaliðar taka þátt í starfi Kirkju heyrnarlausra við t.d helgihald og kaffisamsæti eftir hverja messu.

Safnaðarráð er við Kirkju heyrnarlausra og hittist það fjórum sinnum á ári, en oftar ef þörf er á.

Hvað þarf prestur heyrnarlausra að hafa til brunns að bera?
*  Æskilegt ef viðkomandi hefur þekkingu á Döff samfélagi
*  Vera tilbúin að tileinka sér nýtt tungumál og menningarheim.
*  Góða þjónustulund, eiga auðvelt með samstarf og samskipti við fjölbreyttan hóp fólks
*  Geta unnið sjálfstætt
*  Hafa frumkvæði og skapandi hugsun
*  Hafa sveigjanleika og geta mætt fólkinu sem hann þjónar þar sem það er statt.
*  Æskilegt er að viðkomandi sé í samstarfi við aðra presta heyrnarlausra á Norðurlöndum.
 

Umsóknarfrestur til og með 28. september 2017